Höfundur lags: Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Höfundur texta: Ólöf Jara Skagfjörð
Útsetning: Guðmundur Ingi Þorvaldsson & Þórður Gunnar Þorvaldsson
Draumar sveima í gegnum huga minn;
fuglar sem þrá að fljúga um himininn.
Alsælan býr mér til draumaheim,
þeytir mér langt út í himingeim.
Kastalar, riddarar
og prinsessa er hallarfangi ófreskjunnar.
Þetta er heimurinn minn. Þetta er tilgangurinn.
Dagarnir endalaust myrkur
sem byrgir mönnum sýn.
Næturnar breytast í daga
þar sem myrkrasólin skín.
Ég hvorki vil vaka né sofa
ég veit ei hvað bíður mín
handan við heiðina háu
vindurinn hvín.
Óttinn smýgur inn í huga minn
Vængbrotnir fuglar fljúga um himininn.
Í kjólinn fór
drekablóð
sem dökkblátt varð að lit
er það rann út í sjó.
Hvar er heimurinn minn? Hver er tilgangurinn?
Dagarnir endalaust myrkur
sem byrgir mönnum sýn.
Næturnar breytast í daga
þar sem myrkrasólin skín.
Ég hvorki vil vaka né sofa
ég veit ei hvað bíður mín
handan við heiðina háu
vindurinn hvín.
Og myndin sem í huga var svo skær
með hverjum degi færist fjær og fjær.
Handan við heiðina háu
vindurinn hvín.