Af gefnu tilefni og vegna athugasemda viljum við taka eftirfarandi fram.
Við stöndum fyllilega við allt sem við segjum í sýningunni. Allt sem þar kemur fram, utan tveggja brandara er byggt á fræðilegum staðreyndum eftir þeim öruggustu heimildum sem við gátum aflað okkur eða eru orða af munnum fíkla sem annað hvort voru í neyslu eða voru nýkomin úr neyslu.
Við hvetjum þá sem vilja sannreyna upplýsingar okkar að fara inn á heimasíðu SÁÁ, saa.is. Neðst í vinstra horninu á forsíðunni er að finna ársrit SÁÁ 2007-2010. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur innihald þess. Sérstaklega notuðum við upplýsingar úr 10.kafla um Unglingameðferðina, bls 71. Eins er að finna undir "um hvað ef" hér á heimasíðunni, handritið af sýningunni.
Annað sem virðist hafa misskilist er að við séum að halda því fram í sýningunni að allir sem byrji í neyslu muni fara sömu leið á botninn, áfengi-canabis-örvandi hvít efni - sprautur. Því fer víðs fjarri. Hins vegar stöndum við við það sem við segjum í sýningunni, að þeir krakkar sem við töluðum við sem höfðu verið að koma úr stífri neyslu, virtust undantekningalítið hafa sömu sögu að segja okkur. Þetta var þeirra leið á botninn. Við vitum það fullvel að það er til fullt af fólki sem hefur verið í neyslu með öðru mynstri í lengri eða skemmri tíma og hafa ekki farið þessa braut, en þetta virðist vera algengasta leiðin á botninn.
Við stöndum við allt sem við segjum um skaðsemi canabis efna. Það byggjum við á vísindalegum staðreyndum sem m.a eru tíunduð eru í ársriti SÁÁ. Þar með erum við ekki að draga úr staðreyndum um skaðsemi annarra vímugjafa. Neysla áfengis í óhófi er t.a.m stórskaðleg og alveg víst að væri alkóhól að koma á markaðinn í dag myndi það vera flokkað með ólöglegum vímuefnum. Það eru líka staðreyndir að mun fleirri deyja á hverju ári af völdum áfengis og tóbaks en af völdum heróíns, það þýðir þó alls ekki að heróín sé hættumina en áfengi, er það?
Neysla áfengis og vímuefna er ekki stórhættuleg í miklu hófi, það gerir engum mikið til að fá sér einn bjór í viku, eða eina sígarettu. Og ef einhver gæti einskorðað heróínneyslu sína við eina sprautu á ári, yrði honum sennilega ekki mikið meint af að því gefnu að hann notaði hreina nál og gott efni. Morfín, sem er náskylt heróíni er jú algengt deyfiefni og mikið notað í heilbrigðisgeiranum. Vandamálið er hins vegar að eðli fíknar og fíkniefna er að neysla þeirra stendur næstum aldrei í stað. Neysla verður til þess að líkaminn hættir eða minkar eigin framleiðslu á þeim efnum sem fíkniefnin annað hvort innihalda eða hvetja líkamann til að framleiða, sem leiðir smám saman til meiri þarfar fyrir viðkomandi fíkniefni eða önnur sterkari.
Annað sem við viljum minnast á er að hvetja ungt fólk til að taka upplýsingum sem þau finna á netinum skaðleysi fíkniefna með fyrirvara. Út um allan heim eru hópar og einstaklingar sem berjast fyrir lögleiðingu vímuefna og hafa búið sér til sannfærandi rök fyrir skaðleysi þeirra sem lítið mál er að falla fyrir ef viljinn er fyrir hendi. Með góðum vilja er ekkert mál að finna heimsíður sem halda því fram að canabisefni séu með öllu skaðlaus, að LSD sé beinlínis hollt, e-töflur meinlausar og þar fram eftir götunum. Í sumum löndum, eins og til dæmis í Bretlandi hafa yfirvöld gefist upp í baráttunni við canabis efni, ekki vegna þess að þau séu skaðlaus heldur vegna þess að neysla þeirra er orðin svo almenn og lögreglan svo vanmáttug gagnvart vandamálinu vegna fjárskorts að hún hefur tekið ákvörðun um það að enskorða baráttu sína við sterkari efni, efni sem eru örvandi og valda meiri beinum samfélaglegum vandmálum eins og ofbeldi og innbrotum.
Í þriðja lagi viljum við taka fram allar niðurstöður þess efnis að hættur af völdum e-taflna séu stórlega ýktar eru varhugaverðar. Fyrst og fremst af eftirfarandi ástæðu.
Virka efnið í upphaflegu e-pillunni er MDMA (methylendioxymetamfetamin). Eins og nafnið gefur til kynna er það eitt af amfetamínefnunum. Þetta var upphaflega sett á markað sem megrunarlyf og síðan reynt að nota það sem geðlyf. Því var hætt vegna mikilla fráhvarfa sjúklinga fyrst og fremst. Það má færa fyrir því rök að neysla MDMA sé ekki svo skaðleg sem af hefur verið látið. Hafið samt eftirfarandi í huga. Þegar e-pillan kom fram á 9. áratug síðustu aldar þurftu neytendur að jafnaði 1-2 töflur á kvöldi. í dag heyrir maður að algengt er að fólk sé að taka milli 10&20 töflur per djamm. Það er fyrst og fremst vegna þess að magn MDMA í hverri töflu er oft hverfandi. MDMA er dýrt í framleiðslu og algengast er að öðrum efnum sé blandað í e-töflur til að drýgja þær. Þú veist sjaldnast hver þau efni eru. í e-töflum hafa fundist efni eins og rottueitur, amfetamín, krakk, morfín, LSD og PCP (englaryk), sem eru stórskaðleg. Töflurnar heita ýmsum skemmtilegum nöfnum, eftir samsetningu þeirra, áhrifum og innihaldi.
hér er grein frá SÁÁ um e: http://www.saa.is/islenski-
Með kveðju!
-Hvað ef?